Aðfararorð 2010

Lykilorð ársins 2010 eru stór orð, sterk fyrirheit Jesú. Hjarta yðar skelfist ekki.

Það er ekki útilokað að mörg okkar hafi verið og séu jafnvel enn hrædd, skelfd eða óörugg vegna þeirrar miklu óvissu sem verið hefur vegna efnahagsástandsins í landinu og þeirra breytinga sem það hefur og gæti hugsanlega enn átt eftir að hafa á okkur. Sá hópur fólks sem Jesú beindi orðum sínum upphaflega til stóð ekki síður frammi fyrir alvarlegu ástandi. Ekki einvörðungu var efnahagur landsins í rúst og þjóðin ófrjáls. Kúgun, ofsóknir, ógn, neyð og dauði voru nær þá en nú og fólki stafaði meiri hætta af veikindum og sjúkdómum en í dag. Þau voru því sannarlega stór orð Jesú: Verið óhrædd. Treystið Guði, treystið mér.

Lykilorð koma nú út á íslensku fimmta árið í röð og eru nú í fyrsta skipti prentuð hér heima á Íslandi. Um síðustu áramót mátti litlu muna að útgáfan stöðvaðist. Bækurnar voru rétt nýlagðar af stað úr prentsmiðju í Sviss þegar íslenska bankakerfið hrundi. Prentkostnaður hafði allt í einu tvöfaldast í íslenskum krónum, það var óljóst hvort hægt væri að leysa bækurnar úr tolli og ljóst að reikningurinn var of hár fyrir okkur til að borga. Þá var gott að hafa áður og fá nú enn einu sinni að reyna að það er innistæða fyrir þessum orðum Jesú. Það má leggja traust sitt á hann og trúa.

Ótti og hræðsla fylgir mannlegu lífi en einhver sagði að ef talið væri saman hversu oft stendur í Biblíunni að þú eigir ekki að óttast þá sé það 365 sinnum – orð Guðs fyrir hvern dag ársins. Þessari útgáfu Lykilorða fylgir sú einlæga ósk okkar, útgefendanna, að þú og allir hinir lesendur Lykilorða fái að reyna hversu gott það er að treysta Guði. Hjarta yðar skelfist ekki.

Cornelia S Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson