Aðfararorð 2019

Lykilorð ársins:

Leitaðu friðar og leggðu stund á hann!

Sálmarnir 34.15

Vers á dag, andartak í einu

Vitur og aldinn maður var eitt sinn spurður að því hvaða stund það væri sem honum hafi þótt merkilegasta stund lífsins. Hann greip þetta þannig á lofti að þegar spurningin er stór þarf svarið fyrst og fremst að vera snjallt. Og hann svaraði á þá leið að „merkilegasta stund lífs míns, er án efa þetta augnablik núna.“ Versið sem við lesum fyrir daginn er merkilegasta vers sem við höfum að lesa af því að það beinir allri athygli okkar að því augnabliki sem við lesum það. Bara það eitt að einbeita sér að einu versi í einu það andartak sem við lesum það þjálfar okkur í því að vera til staðar í andrá dagsins sem nú er gefinn.

            Vers á dag er lykill að því að upplifa andartakið sem óðum er liðið. Áður en við vitum af líður það í aldanna skaut með ári sínu og öllum öðrum dögum á liðnum tíma. Ég heyrði á dögunum eina sterkustu túlkun á spekinni, sem vitri maðurinn þekkti til hlýtar eftir ævilanga íhugun. Þá var það sjúkraliði sem annaðist fullorðna konu með sjúkdóminn Alzheimer. Merkilegasta stund þeirrar konu var ekki sá liðni tími sem hún gat ekki munað né heldur framtíðin sem hún átti erfitt með að ímynda sér af nokkru raunsæi. Veikindi hennar höfðu tekið hvoru tveggja frá henni. Augnablikið sem hún átti með hjúkrunarfólkinu og með ástvinum sínum í það og það skiptið var það eina sem var í boði. Hún hafði ekki úr öðru að velja en eitt andartak í einu. Við getum hugleitt það um leið og við hreinsum huga okkar hvern dag og finnum sérvalið vers úr Biblíunni sem talar til okkar ef við náum að einbeita okkur. Þá áttum við okkur á því að þetta vers er innblásið af Guði í líf okkar og við veljum ekki annað en túlkun á því þann daginn. Drottinn signi þessa merkilegu litlu bók sem kennir okkur óendanlega mikilvæga speki fyrir líðandi stund.

sr. Kristján Björnsson
vígslubiskup í Skálholti