
Lykilorð er lítil bók, kilja, sem gefinn er út af Lífsmótun, sjálfseignarstofnun. Útgáfa hennar hófst á haustið 2005 og var fyrsti árgangurinn prentaður í 2000 eintökum í Sviss. Í þessum fyrsta árgangi Lykilorða á íslensku voru engin aðfararorð og útlit bókarinnar var hefðbundin blár litur sem einkenndi Losungen, Lykilorð í Þýskalandi til margra ára. Eintakið kostaði 790 kr. en stærstur hluti upplagsins var gefinn í þeim tilgangi að kynna Lykilorðin.
Annar árgangur Lykilorða á íslensku var eldrauður líkt og bókin var í þýskri útgáfu fyrir Sviss í mörg ár. Sem fyrr var bókin prentuð þar en að þessu sinni eingöngu 1000 eintök. Aðfararorð þýsku útgáfunnar, Losungen, voru þýdd og staðfærð og eru það einu aðfararorðin sem ekki er hægt að finna hér á vefsvæðinu. Frá upphafi er fremst í bókinni kafli um uppbyggingu bókarinnar og hugmyndir að fyrirbænarefnum fyrir hvern dag vikunnar.


Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, skrifaði aðfararorðin fyrir Lykilorð 2008, þriðja árgangin. Þar sem Lykilorð ársins voru þau sömu og standa á sálnahliði kirkjugarðsins í Vestmannaeyjum kom Karl inn á þjónustu sína þar og gosið í Eyjum. Þetta gaf tilefni til þess að prenta ljósmynd utan á bókina og hefur allt síðan þá verið valin ljósmynd úr íslenskri náttúru á hverju ári til að prýða kápuna.
Lykilorð eru tveir ritningartextar úr Biblíunni fyrir hvern dag auk þriðja textans, sem oftast er ljóðaerindi en stundum líka bæn eða fleyg orð þekktra aðila. Á hverju ári notum við í kringum 50 slíka texta beint fyrir sama dag og er í þýskri útgáfu Lykilorða, Losungen, handritinu sem við fáum til að vinna eftir. Frá upphafi hefur Kristján Valur Ingólfsson annast þýðingar á þessum textum fyrir Lykilorð en auk þess fengum við hann einnig til að skrifa aðfararorðin í Lykilorð 2009.


Eftir að hafa, árið 2008, fengið Magnús Jón Hilmarsson frá Offsetstofunni á Akureyri til þess að setja upp bókina og undirbúa að fullu til prentunar var ákveðið að prófa að færa prentunina sjálfa til Íslands, nánar tiltekið til Akureyrar. Fyrir valinu varð Prentsmiðjan Ásprent sem annaðist svo prentun í 11 ár, á Lykilorðum 2010 – 2021 allt þar til prentsmiðjan var seld og nýir eigendur ákváðu að prenta ekki bækur á Akureyri.
Lykilorð eiga að geta nýst öllum kristnum, óháð því hvaða kirkjudeild viðkomandi tilheyrir. Lífsmótun vill einnig starfa með og styðja við allar kristnar kirkjur. Aðfararorð þetta árið ritaði formaður samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi, María Ágústsdóttir. Allt frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að kynna Lykilorð hvarvetna þar sem dyr standa opnar. Að sama skapi er efni í þriðja texta bókanna sóttur í sálmabækur frá öllum þeim kirkjudeildum á Íslandi sem gefið hafa út slíkar bækur.


Allt frá því haustið 2011 hefur Lífsmótun látið prenta út mismunandi tegundir af veggspjöldum með sömu mynd og prýðir bókakápuna í því skyni að auglýsa bókina og vekja á henni athygli. Þessu hefur verið fyrst og fremst dreift í kirkjur og á ljósmyndina hefur einnig verið settur texti, Lykilorð ársins, sem er sérvalið ritningarvers til að vera líkt og nokkurs konar yfirskrift þess árs. Í einstaka kirkjum á þetta veggspjald orðið eins og sinn vísa stað á auglýsingatöflu þar sem næsti árgangur leysir þann fyrri af.
Fljótlega var farið að bjóða og hvetja fólk sem náði að festa notkun á bókinni inn í sitt daglega líf til að gerast áskrifendur. Markviss skráning áskrifenda var þó lítil fyrstu árin en frá og með 2012 hafa nokkrir bæst á listann á því sem næst hverju ári. Áskrifandi fær bókina senda til sín um leið og hún kemur úr prentun auk þess sem áskrifendur fá bókina á umtalsvert lægra verði en hún kostar almennt í bókaverslunum. Í þeim löndum þar sem Lykilorð hafa komið út í lengri tíma er fjöldi þeirra sem byrja aldrei nýtt ár án þess að eiga bókina mikill.


Um leið og byrjað var að prenta Lykilorð hér á Íslandi fór að fylgja bókinni lítið bókamerki sem prentað var á afgangspappír bókakápunnar, pappír sem annars hefði farið til spillis. Bókamerkið er hannað út frá ljósmyndinni sem prýðir kápuna og líkt og veggspjöldin með Lykilorði ársins. Frá og með 2012 hefur líka fylgt bókinni póstkort af bókakápuljósmyndinni og Lykilorði ársins. Þegar tækifæri hafa gefist til hefur líka verið prófað að prenta út fleiri útfærslur s.s. eins og bókamerki með Biblíuversum á ensku.
