Aðfararorð 2013

Nýtt – gamalt.  Þessi orð komu mér í hug þegar ég las yfirskrift Lykilorða 2013 sem tekin eru úr Hebreabréfinu 13:14 ,,Hér höfum við ekki borg er stendur heldur leitum við hinnar komandi.“  Með fórnardauða Jesú komu nýir tímar.  Það þurfti ekki lengur að fórna dýrum til að friðþægja fyrir syndirnar.  Með dauða sínum og upprisu var endir bundinn á alla fórnarþjónustu prestanna. 

Það er gefandi að lesa Orðið og nauðsynlegt hverjum kristnum einstaklingi.   Það er grunnur þekkingar og löngunar til að fylgja Jesú og feta í sporin hans.  Læra af honum mannleg samskipti og framgöngu alla.  Yfirgefa þægindin og öryggið og taka þá áhættu að fylgja honum jafnvel þó það kosti þjáningu eins og hann reyndi.  Að vera kristinnar trúar er að gefa sig Jesú í hugsun, orðum og gjörðum.  Lofa hann og þakka honum.   Það getur reynt á á stundum en líka gefið meira en allt annað er lífið býður. 

Það er gott að geta fundið á einum stað Orð dagsins sem vekur til umhugsunar, styrkir og fylgir í huga og sinni út í daginn.  Þau eiga því þakkir skildar er hafa komið Lykilorðum til Íslands og gefið þau út.  Guð finnur alltaf færar leiðir til að auka farsæld okkar.  Lykilorðin eru vörður á þeirri leið.  Blessun  Guðs fylgi þér lesandi góður á nýju ári 2013.

Agnes M. Sigurðardóttir
Biskup Íslands