Aðfararorð 2018

____________________________________________________

Lykilorð ársins 2018:

Guð segir: Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.

Opinberunarbókin 21.6

____________________________________________________

Þegar ég var barn sótti ég oft vatn í flösku fyrir ömmu í sérstaka lind við vatnsbakkann. Amma hafði sérstakar mætur á þessu lindarvatni og ég var alltaf jafn snortin af því að horfa í lindina sem streymdi undan vatnsbakkanum með óstöðvandi orku og fersku, köldu vatni. Lindarvatnið hennar ömmu bragðaðist öðruvísi en vatnið úr krananum, það var svalandi og mjúkt en um leið hressandi og ískalt.
Þorstinn er merki um líf. Okkur þyrstir til líkama og sálar.  Hvar eru lindirnar með því vatni sem dugir til lífs?
Orð Guðs sem daglega svalandi vatn er lind lífsins. Lykilorð hvers dags vekja heilbrigðan lífsþorsta og svala um leið þorsta okkar um leiðsögn til lífs.

Í nýrri sálmabók verður þessi sálmur Sigurðar Pálssonar, skálds (1948-2017).

  1. Hróp mitt er þögult,
    þú heyrir það samt,
    þögnin hún ómar
    í þér, í þér,
    ómar eins og vatnið,
    streymandi vatnið.
  2. Þrá mín er þögul,
    þú heyrir hana samt,
    þráin hún ómar
    í þér, í þér,
    ómar eins og vatnið,
    svalandi vatnið.
  3. Bæn mín er þögul,
    þú heyrir hana samt,
    bænin hún ómar
    í þér, í þér,
    ómar eins og vatnið,
    lifandi vatnið.

Megi Lykilorðin verða þér lifandi vatn árið 2018.

Margrét Bóasdóttir
Söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar