Aðfararorð 2023

Lykilorð ársins 2023

Þú ert Guð sem sér mig.

1. Mósebók 16.13

Í veiruvitleysunni, þurfti að taka sér eitthvað fyrir hendur til þess að vinna Guðsríkinu eitthvert gagn, þegar ekki mátti messa og aðeins sjást á hundleiðinlegum Zoomkomum í staðinn fyrir að hittast á samkomum.

Ég hafði samband við Biblíufélagið, Hjálparstarf kirkjunnar, Kristniboðssambandið, Samhjálp Hvítsynninga og fleiri félög, sem áttu fullt af blöðum og bæklingum í kössum og hillum, sem söfnuðu ryki og rusli. Fékk hjá þeim allt sem til var og dreifði í heilu hverfin í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum, sem og í sumarleyfi líka í þorp, sem ég kom í. Heildarfjöldi dreifðra eintaka er komin í 24 þúsund, sem annars væru engum til gagns hjá viðkomandi.

Einnig hefi ég keypt danskt kristilegt dagatal til fjölda ára, sem þarf að rífa af á hverjum degi, og les á meðan, ég skaka í skoltinum á morgnana. Fer viðkomandi dagatalsdagur síðan í rassvasann og dreifi þessu í búðinni eða bankanum eða í póstkassa, þar sem ég á leið um.

Líkt og Lykilorðið, þá hefur Orðið áhrif í ólíklegustu aðstæðum, þar sem maður veit aldrei, hvenær það hittir einhvern fyrir, sem þarf á því að halda eða það talar inn í aðstæður viðkomandi. Orðið er sífellt nýtt og sístætt, Hundgömul blöð með Orðinu hafa þannig áhrif, sem smýgur inn í innstu hugarfylgsni. Þess vegna skuluð þið ekki henda einhverjum kristilegum ritum í endurvinnsluna heima hjá ykkur, heldur miklu fremur koma þeim í miklu vistvænni endurvinnslu með því að skella þeim í póstkassa, þar sem þið eigið leið um. Þá erum við verkamenn í víngarði Guðs og höldum verkinu áfram, þar sem hann hefur ekki aðra en þig og mig til þess  að koma fagnaðarerindu á framfæri.

Stundum hefur fólk hrifsað úr póstlúgunni það, sem ég hefi látið í. Enda var oft við lítið að vera í sóttkví eða einangrun og fásinninu heimafyrir. Ekki aldeilis unnið fyrir gýg að dreifa þessu á þennan hátt. Alla vegana ýtir þetta við fólki og vekur upp á stundum, sem annars hefi ekki gerzt.

Með kveðjum Pétur.