Aðfararorð 2024

Lykilorð ársins:

“Auðsýnið kærleika í öllu sem þið gerið.”

1.Korintubréf 16.14

Lestur og íhugun á Guðs orði er nokkuð sem eykur trúarskilning okkar og dýpkar samfélag okkar við Guð. Trú okkar byggist bæði á þekkingu og upplifun af nálægð Guðs, ekki síst við lestur og bænaiðkun, en einmitt þá opnar Guð oft augu okkar fyrir þeirri blessun sem samfélagið við hann veitir inn í líf okkar. Fyrir mörgum árum las ég bókina The Practice of the Presence of God eftir Brother Lawrence en hann var munkur úr reglu Carmelite á 17.öld. Bókin er safn bréfa og samtala sem Faðir Joseph de Beaufort safnaði. Brother Lawrence lagði mikla áherslu á þá blessun sem fylgdi því að vera stöðugt í nálægð Guðs, ekki aðeins þegar við værum að lesa og biðja. Í gegnum daginn beindi hann stöðugt hugsun sinni að samræðum við Guð vegna smárra og stórra ákvarðana en einnig vegna ýmissa hugleiðinga eða tilfinninga sem honum þótti gott að deila með Guði. Brother Lawrence sagði að smám saman þjálfaðist hann í að skynja og dvelja í nærveru Guðs og hlusta eftir rödd hans. Ef hugurinn reikaði, sem oft gerist, þá beindi hann aftur athyglinni að samtalinu. Við þessa ástundun hlotnast þríþætt blessun. Í fyrsta lagi verður trúin meira lifandi og hefur dýpri áhrif á hugsanir og gjörðir okkar yfir daginn. Þannig verndar hún okkur fyrir freistingum. Í öðru lagi styrkist von okkar í gegnum þá iðkun að æfa okkur í að dvelja í nærveru Guðs, því upplifun okkar af mikilfengleik Guðs og elsku hans til okkar eflist. Í þriðja lagi áttum við okkur sterkar á því að við erum gestir og útlendingar í þessum heimi. Við upplifum djúpa gleði og frið í samfélaginu við Guð og söknum ekki þess sem heimurinn býður upp á því að „föðurland vort er á himni.“ Þetta þrennt verkar og vinnur saman þannig að Guð getur fyllt okkur af heilögum anda í gegnum það sem Brother Lawrence kallar „opnar dyr.“ Þannig fær Guð tækifæri til að hreinsa okkur og færa okkur nær sér, þannig að elska hans til okkar geti borist til annarra í gegnum okkur.

Markmið okkar er að elska aðra og þjóna eins og Jesús Kristur gerði. Við hugsum sjálfsagt flest að í önnum dagsins sé varla hægt að dvelja stöðugt í návist Guðs. Það er vissulega áskorun, en líklega getum við gert meira en við gerum. Sækjum næringu og blessun í hann sem elskar okkur og vill fylla okkur af sínum anda, þannig að við getum uppfyllt hlutverk okkar að færa öðrum fagnaðarboðskapinn um frelsun og frið.

Ásta Bryndís Schram

formaður stjórnar SÍK