Aðfararorð 2011

Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.                     

                                                                                   Róm 12.21

 Lykilorð ársins 2011 er máttug og mikilvæg áminning til okkar, en ber einnig með sér dýrmæta uppörvun og von. Fyrri hluti þessa síðasta vers í hinum magnaða 12. kafla Rómverjabréfsins, Lát ekki hið illa sigra þig, minnir okkur á að hið illa er ekki einhver gömul goðsögn heldur staðreynd mannlegrar reynslu. Við rekum okkur svo oft á það sem er miður gott, bæði í eigin lífi og annarra, og stundum er eins og aðstæður lífsins séu óútreiknanlegar og ekki í mannlegu valdi að afstýra erfiðleikunum. Áminningin er sú að hið illa eigi ekki að hafa yfirhöndina, að við eigum ekki að gefa eftir gagnvart því sem vill rífa niður og eyðileggja. Það er hollt að viðurkenna vanmátt sinn, satt er það, en það merkir ekki að við eigum að leyfa niðurrifsöflunum að ná yfirhöndinni.

Í síðari hluta versins segir: En sigra þú illt með góðu. Þarna er að finna fullvissu þess að hið góða muni hafa vinninginn. Þetta eru stórkostleg uppörvunarorð og lýsa trausti á Honum sem einn er hinn góði, samanber orð Jesú í Matt 19.17: Hví spyr þú mig um hið góða? Aðeins einn er góður. Ef þú vilt inn ganga til lífsins þá haltu boðorðin. Með því að fylgja Honum, gera vilja Hans sem er hið góða, fagra og fullkomna, eins og segir í Róm 12.2, fáum við kraft til að sigra hið illa.

Tökum ekki þátt í verkum hins illa, hversu smávægileg sem þau kunna að virðast. Látum dagfar okkar allt mótast af Jesú Kristi, leyfum Heilögum anda að helga líf okkar hvert andartak. Það á m.a. við um það sem nefnt er í versunum á undan Róm 12.21, um að við eigum ekki að hefna okkar heldur þjóna öllum í kærleika, einnig þeim sem gera á okkar hlut. Verum það sem við erum kölluð til að vera, sannir fylgjendur Jesú Krists hvert skref lífs okkar. Því fylgir léttir og lífsgleði, alla daga ársins. Guð blessi þér árið 2011, kæri lesandi Lykilorða.

 María Ágústsdóttir

Formaður Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi.