Aðfararorð 2009

Eitt fegursta kennileiti Kirkjubæjarklausturs er Systrastapi. Skammt fyrir vestan hann er Eldmessutanginn þar sem hraunið stöðvaðist á undursamlegan hátt í Skaftáreldum 1783 meðan séra Jón Þorsteinsson söng messu með söfnuði sínum.

Kirkjubæjarklaustur ber hátt í sögu kristinnar á Íslandi. Frá fyrstu tíð byggðar voru þar játendur Jesú Krists. Meðan landsmenn voru enn heiðnir að mestu, bjuggu kristnir menn þar. Þegar klaustrahald hófst í landinu var reist þar nunnuklaustur. Systrastapinn dregur nafn sitt af konunum sem helguðu líf sitt Kristi og voru systur í klaustrinu.

Hið þriðja sem hæst rís í sögu staðarins er tvímælalaust starf og trúareldmóður séra Jóns Þorsteinssonar á einhverjum allra erfiðustu árum Íslandsbyggðar.

Þetta þrennt: Líf hinna fyrstu kristnu í heiðnu samfélagi, klausturlíf systranna á umbrotatímum sögunnar og sálusorgun séra Jóns andspænis ógnarkrafti náttúruaflanna, þar sem hann mætir miskunn Guðs á hverjum degi, er eins og staðfesting á yfirskrift Lykilorðanna 2009.

Systrastapinn getur því verið áminning til okkar allra um að ganga ótrauð inn til hins nýja árs í fullu trausti þess að: „það sem mönnum er um megn, það megnar Guð“.

Kristján Valur Ingólfsson