Aðfararorð 2008

Ég lifi og þér munuð lifa
Jóh. 14.19

Þessi orð frelsarans hljóma oft á sorgarstundum og eru mörgum hugfólgin. Þau eru rituð víða á legsteina og á sáluhlið, þar á meðal yfir sáluhliði kirkjugarðsins í Vestmannaeyjum. Þegar eldgosið var í Vestmannaeyjum 1973 stóð sáluhliðið upp úr öskunni og fór myndin af því og áletruninni víða og reyndist mörgum öflugt fyrirheit, orð vonar, huggunar og hughreistingar: „Ég lifi og þér munuð lifa.“

Það er innistæða fyrir þessum orðum. Það finna þau sem á þau vona og treysta. Sá sem talar í orðinu er frelsarinn sem tók á sig líf okkar og kjör, þjáning og dauða. Hann gekk í dauðann til að gefa okkur lífið eilífa. Sjálfur sagði hann: „Ég hef lykla dauðans og heljar.“ Þess vegna er orð hans lausnarorð, lykilorð.

Mér er það mikil gleði að fá að fylgja þessari útgáfu Lykilorða úr hlaði. Ég þakka þeim sem stuðla að því að Lykilorð skuli koma út á íslensku til gagns og uppbyggingar íslenskum lesendum. Þau hafa hvarvetna reynst góður förunautur á vegi trúar og bænar, leiðsögn til Jesú og að líknarlindum fagnaðarerindisins. Ég bið þeim sem Lykilorðin lesa blessunar Guðs, að orð Guðs mæti þeim á hverjum degi sem lifandi rödd hins lifanda Guðs og frelsara.  Friður hans sé með öllum

Karl Sigurbjörnsson