Aðfararorð 2015

Lykilorð ársins 2015:

Takið því hvert annað að ykkur eins og Kristur tók ykkur að sér Guði til dýrðar.

Rómverjabréfið 15,7

 Heil og sæl.

Biblían er oft kölluð bók bókanna. Hún er uppfull af fróðleik um lífið sjálft. Hún kennir mér hvernig ég á að koma fram við náunga minn og hvernig ég á að haga lífi mínu. Biblían kennir mér að skoða líf mitt og athuga hvort ég gangi í takt við það sem Guð vill. Í Míka 6:8 segir; “Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: Þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.” Biblían er mér mikils virði og ég verð að kynna mér um hvað hún fjallar, taka mér tíma til að lesa Biblíuna og hugleiða orð hennar, það gefur mér visku og vísdóm til að gera það sem rétt er.

Í amstri dagsins er gott að hafa verkfæri eins og Lykilorð til að hjálpa mér við að lesa og hugleiða orð Guðs daglega, njóta þess að vera í nærveru Guðs. Biblían er Guð að tala til mín. Daníel kom þrisvar sinnum á dag fram fyrir Guð og átti samfélag við hann. Njótum þess að eiga samfélag við Guð og lesum hans orð Biblíuna.

Í Róm 15:7 segir að við eigum að taka hvort annað að okkur eins og Kristur tók okkur að sér. Í lífinu þurfum við að taka á margvíslegum erfiðleikum, þá er gott að eiga einhvern að sem biður með okkur og styður okkur og aðstoðar eftir fremsta megni. Þess vegna eru kirkjur svo nauðsynlegar, þar komum við saman til að eiga samfélag. Matt. 18:20. “Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.” Komum saman eigum samfélag og þjónum til hvers annars, í Jesú nafni.

 Högni Valsson
Vegurinn