Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur
1. jóhannesarbréf 4.5
Mér þykir vænt um að fá að skrifa aðfararorð í fallegt rit af þessu tagi. Ekki er ég skráður í Þjóðkirkjuna eða önnur trúfélög, ólst upp í kaþólskum sið en vildi hverfa úr þeim heimi á fullorðinsárum. Áfram lifði þó og lifir enn trúin á hið góða í manninum, virðing fyrir þeim sem trúa á sinn guð af djúpri sannfæringu og viðurkenning á eigin vanmætti þegar leita þarf svara við hinum djúpstæðustu spurningum um upphaf, endi og tilgang jarðlegs lífs.
Þá getur trú verið svo sterkt haldreipi og sömuleiðis þegar áföll dynja yfir. Þetta hygg ég að lesendur viti vel, þið sem hafið orðið vitni að slíku og jafnvel fundið það sjálf. Kirkjunnar þjónar kunna að rétta hjálparhönd og svo er að sjálfsögðu hægt að finna styrk, von og trú í guðsorði eða fallegu riti af þessu tagi.
Trú og vissa um æðri máttarvöld virðist hafa fylgt mannkyni frá öndverðu. Við kunnum líka þá sögu að þegar land okkar byggðist var fólk annað hvort kristið eða ásatrúar. Átökum var afstýrt þegar lögsögumaður kvað upp þann dóm á Alþingi að landsmenn skyldu hafa ein lög og einn sið.
Nú er öldin önnur. Við skulum hafa ein lög en marga siði. Trúfrelsi er ein meginstoðin í frjálsu og öflugu samfélagi, fjölbreytni, umburðarlyndi og víðsýni aðrir mikilvægir máttarstólpar. Um leið liggur styrkur samfélags og ríkis ekki síst í þeim sáttmála fólks frá degi til dags að það sé meira sem sameinar okkur en hitt sem sundrar. Þar geta kirkja og trú gegnt viðamiklu hlutverki. Þess vegna þurfum við áfram að kenna og kunna sögu trúar og menningar á Íslandi, eins samofin og hún er sögu þjóðarinnar öld fram af öld.
Sinnuleysi veldur vanþekkingu. Vanþekking vekur tortryggni. Tortryggni elur á ótta. Ótti kveikir hatur. Hatur leiðir til hörmunga. Aftur á móti býr forvitni til þekkingu. Þekking eykur umburðarlyndi. Umburðarlyndi eflir kærleik. Og kærleikurinn skapar ást.
Megi Lykilorð vekja þig til umhugsunar, veita þér styrk og verða jafnvel til gleði.
Guðni Th Jóhannesson prófessor í sagnfræði við HÍ og forseti Íslands 2016 – 2024