Aðfararorð 2025

“Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.”

Matteus 8.26

Fyrir stuttu síðan er ég gekk á eitt af fjöllunum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins í stormi og rigningu rifjaðist upp fyrir mér köfnunartilfinningin sem oft sótti að mér í sterkum vindi þegar ég var barn. Ég á minningu frá því ég var um það bil sex ára gömul er ég var að ganga í skólann í svo miklum mótvindi að ég óttaðist í alvörunni að ég myndi kafna og deyja. Ég reyndi að hlaupa reglulega í skjól við húsin við götuna til þess að ná andanum og til þess að safna kjarki til að halda áfram. Svona gekk þetta alla leiðina í skólann og ég kafnaði ekki í storminum. Ég minnist þess einnig úr þessari ferð, og fleirum þar sem ég óttaðist að vindurinn myndi kæfa mig, að ég átti í stöðugu samtali við Guð. Ég upplifði sannarlega að við Guð færum í þessar ferðir í sameiningu.

Fyrir mér er Guð ekki eitthvað sem ég tek fram á hátíðarstundum og í fallega orðuðum bænum. Ég þarf ekki að fara í sparifötin og setja mig í stellingar áður en ég get átt samtal við Guð. Guð er það sem leiðir mig í gegnum lífið, jafnt í gegnum erfiðu stundirnar, þegar mér finnst ég vera að kafna í stormi, sem og gleðistundirnar, þegar allt gengur að óskum. Þannig er Guð mér, sem félagi er tekur þátt í lífinu með mér og blæs í mig kjarki þegar óttinn ætlar að taka völdin.

Þrátt fyrir að það hafi ávallt reynst mér vel að hafa Guð með mér í hversdeginum hefur það ekki síður haft áhrif á líf mitt til góðs þegar ég tek frá stund, helst daglega, til þess að lesa í Biblíunni og íhuga orðið. Íhuga hvað það er sem Guð vill með mínu lífi og þeirra sem í kringum mig eru. Þessi bók, Lykilorð, getur reynst vel við slíka iðkunn þar sem biblíuvers er valið fyrir hvern dag ársins. Ég hef einnig nýtt mér Lykilorð á Instagram þar sem versin eru sett upp á sjónrænt fallegan hátt með tónlist undir.

Megi Lykilorð reynast þér áttaviti og farvegur fyrir elsku Guðs í þínu daglega lífi og jafnvel hjálpa þér að stilla stormana.

Guðrún Karls Helgudóttir,
biskup Íslands