Jesús Kristur segir: Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.
2. Korintubréf 12.9
Það er mér heiður að fá að skrifa formálann í Lykilorð ársins 2012. Lykilorðin byggjast á orði Guðs sem bregst ekki þó allt annað bregðist. Undanfarin ár höfum við verið minnt svo rækilega á að ekkert er öruggt sem maðurinn hefur verið byggingameistari að. En orð Guðs er öruggur grunnur sem óhætt er að treysta og byggja líf sitt á.
„Náð mín nægir þér“ var svar Guðs inn í líf Páls. Frá versi 7 lesum við: „Og til þess að ég skuli ekki ofmetnast af hinum miklu opinberunum er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig til þess að ég skuli ekki líta of stórt á mig. Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér. Og hann hefur svarað mér: „Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Páll heldur svo áfram og segir: „Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.“
Það er einmitt þetta sem við öll þurfum fyrir daglegt líf okkar og þær kringumstæður sem við rötum í; að kraftur Krists búi í okkur. Á hverjum degi fáum við nýjan náðardag. Við þurfum ekki að lifa í náð gærdagsins því ritningin segir: „Eins og dagurinn er, mun styrkur þinn vera,“ og Páll hvetur Tímóteus og segir: „Þú barnið mitt, Tímóteus, ver styrkur í náðinni sem veitist í Kristi Jesú.“
Þegar þú lest þessa yndislegu bók, Lykilorð 2012, leyfðu þá orði Guðs að styrkja þig og efla í náðinni sem veitist í Kristi Jesú.
Vörður Leví Traustason
Pastor/prestur Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu í Reykjavík