Biblían er mikil bók. Reyndar er hún undarlegasta bók í heimi af því að hún er ekki ein bók, heldur margar bækur, heilt bókasafn. Hún er safn 66 bóka sem skrifaðar voru á löngum tíma.
Sumum finnst Biblían vera óaðgengilegt rit og þau sem byrja að lesa hana á blaðsíðu eitt enda oftast á því að gefast upp.
Við verðum að læra að lesa Biblíuna og því er svo mikilvægt að fermingarbörn eignist Biblíuna við upphaf fermingarstarfanna svo hægt sé að kenna þeim að fletta upp í henni.
Orð Biblíunnar skipta misjafnlega miklu máli. Orð Jesú í guðspjöllunum skipta langmestu máli af öllu því sem í Biblíunni stendur. Orð Jesú eru ekki venjuleg orð, heldur eru þau erindi Guðs við okkur öll. Þess vegna er svo mikilvægt þegar við lesum orðin að við séum vakandi fyrir því að við eigum samtal við Guð. Við þurfum að biðja Guð um að senda okkur heilagan anda svo orðið verði lifandi í lífi okkar og verði okkur leiðbeining í lífi og starfi.
Lykilorðin sem komið hafa út í átta ár á íslensku eru stórkostlegt hjálpartæki við að lesa Biblíuna og þau hjálpa okkur til að orða bæn okkar með þeim. Þau ættum við að hafa við höndina daglega.
Nú koma Lykilorð út í níunda sinn á íslensku árið 2014 þegar við höldum upp á 400 ára fæðingarafmæli Hallgríms Péturssonar, sem var meistari í því að byggja sálma sína og bænir á orði Guðs.
Bæn þína aldrei byggðu fast
á brjóstvit náttúru þinnar,
í Guðs orði skal hún grundvallast,
það gefur styrk trúarinnar.
Hallgrímur Pétursson, Passíusálmur 44.17
Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir
Vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal