___________________________________________________________
Lykilorð ársins 2017
Drottinn Guð segir: Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst.
Esekíel 36.26
___________________________________________________________
Þessi orð voru sögð og rituð fyrir meira en 2500 árum. Við, sem nú erum uppi, vitum að ný líffæri gefa kost á nýju lífi. Líffæraskipti fela í sér framtíðarvon, endurnýja lífsþróttinn, bæta heilsu og hag fólks sem var jafnvel við dauðans dyr.
Samlíkingin hjá Esekíel felur í sér að þannig vill Guð einnig endurnýja okkur andlega, gefa eilífa von og styrk til að takast á við hvaðeina sem lífið ber með sér.
Margt er að í veröldinni, bæði úti í hinum stóra heimi og í samfélagi okkar. Allt frá hruni hefur verið rætt um það sem þyrfti að breyta og bæta.
Eitt hefur þó iðulega gleymst í þeirri umræðu: Breytingin þarf að byrja innra með okkur sjálfum. Hjartað, sem Biblían segir að þurfi að skipta um, er innsti kjarni persónu okkar, miðstöð hugsana, tilfinninga og vilja. Í þeim skilningi þurfum við öll nýtt hjarta, hjarta sem slær eftir vilja Guðs og finnur til með öðrum.
Auðvitað skiptir máli að líffæraþeginn hugsi vel um nýja líffærið svo það sinni hlutverki sínu sem best. Eins kallar Guð okkur til að varðveita hjarta okkar, þ. e. a. s., rækja og rækta trúna svo hún lifi í okkur og við þjónum honum með lífi okkar.
Guð vinnur verk sitt í okkur gegnum orð sitt. Það er andleg næring í amstri daganna og opnar anda Guðs leið að hjörtum okkar.
Mörg okkar taka daglega lýsi, vítamín eða önnur bætiefni til að styrkja varnir líkamans og fyrirbyggja kvilla.
Lykilorð eru full af andlegum bætiefnum sem endast okkur allt árið 2017. Dagskammturinn styrkir andlegt ónæmiskerfi okkar og gerir okkur færari um að lifa því lífi sem nýja hjartað gefur kost á.
Ólafur Jóhannsson, Grensáskirkju