Lykilorð ársins:
Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.
Markús 9.24
Ég las eitt sinn um unga konu sem lenti í alvarlegu slysi og slasaðist illa. Hún skrifaði í kjölfarið á þessa leið: “Að vera sterk er ekki það að detta aldrei, ekki það að vita alltaf og geta alltaf.
Að vera sterk er ekki það að geta hlegið, hoppað hæst eða sýnt mest æðruleysi eða mestan viljastyrk. Að vera sterk er að sjá lífið eins og það er og viðurkenna kraft þess og nýta hann. Að vera sterk er að detta, meiða sig, en rísa upp aftur. Að voga að vona, jafnvel þegar trúin er veikust. Að vera sterk er að sjá ljós í myrkrinu og berjast alltaf fyrir því að ná þangað.”
Elskandi foreldri, faðir, leitaði til Jesú með sjúkan son sinn. Hræddur, en ekki án vonar, með efa en ekki án vonar, bað hann Jesú um hjálp. Jesús svaraði honum meðal annars með þessum orðum: Sá getur allt sem trúir. Og jafnskjótt hrópaði faðirinn þessa fallegu einlægu bæn og trúarjátningu í auðmýkt sinni: Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.
Stundum er erfitt að trúa og vona. Stundum er lífið hart og kalt og eina sem við þráum er að fá að halla okkur að hjarta Guðs og finna huggun, uppörvun og hughreystingu. Eins og faðirinn fann í orðum Jesú.
Í Lykilorðum er að finna margvíslegan boðskap Biblíunnar. Orð Guðs, já orð Jesú. Orð sem eru okkur leiðsögn og styrkur inn í nýjan dag og/eða þegar við lítum yfir daginn að kvöldi og þökkum fyrir það sem gott var en líka fyrir samfylgd og vernd Guðs í því sem reyndist krefjandi og jafnvel sárt.
Megi Lykilorð verða farvegur fyrir elsku og gæsku Guðs og leiðsögn hans, til að blessun Guðs megi verða í lífi þínu á hverjum einasta degi í öllum þeim verkefnum sem lífið færir þér.
sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir,