Lykilorð ársins:
Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur
Lúkas 6.36
Ég á minningu frá því fyrir mörgum árum er ég starfaði í Kenýu. Fólkið þar sem ég bjó var fátækt en á jólunum vildi það halda veislu þar sem allir væru velkomnir. Slegið var saman í púkk til að geta keypt veglegar veitingar, hrísgrjón og geit. Margir komu, kirkjufólk og aðrir, og glöddust yfir því að fá veislumat. Síðar frétti ég að sumt kirkjufólkið hefði neitaði sér um veitingarnar til að tryggja að gestirnir fengju örugglega að njóta þeirra. Þetta fannst mér mikil umhyggja, fórnfýsi og kærleikur.
Nokkur fjöldi flóttamanna hefur knúið á dyr íslenska ríkisins á undanförnum árum á flótta undan ýmis konar skelfingu. Þeir flýja ekki ættjörð sína, ættaróðul, fyrirtæki, eignir og ástvini að ástæðulausu. Sumir hafa fengið hæli hér á landi og tækifæri til að byggja sér og fjölskyldum sínum nýja framtíð en aðrir hafa mætt skeytingarleysi og kulda og verið sendir úr landi til baka í ómannúðlegar aðstæður.
Okkur Íslendingum hefur löngum þótt sjálfsagt að geta flutt til annarra landa þegar illa hefur árað hér á landi eða í leit að tækifærum. Það skýtur því skökku við að við skulum hafa búið til kerfi útlendingamála sem kemur stundum illa fram við fólk í neyð. Miskunnsami Samverjinn var útlendingur sem margir litu niður á. Hann sýndi okkur hvernig miskunnsemi getur birst. Jesús var flóttamaður í æsku er foreldrar hans flýðu með hann til Egyptalands undan dauðasveitum Heródesar. Þar naut hann friðar landsins.
Orð Biblíunnar er skapandi orð Guðs. Það skapar trúna í hjörtum okkar og mótar gildismatið sem stjórnar breytni okkar þegar við lesum það. Megi það gera okkur miskunnsöm eins og faðir okkar er miskunnsamur.
sr. Kjartan Jónsson