Lykilorð ársins:
Jesús Kristur segir: Þann sem til mín kemur mun ég alls eigi brott reka.
Jóhannes 6.37
Einu sinni var sjálfsagt að koma í heimsókn til fólks án þess að gera boð á undan sér. Auðvitað tíðkast það eitthvað enn en í mun minna mæli. Við sem erum svo vel búin allskyns flottum tækjum, til að skipuleggja tíma okkar og vera í sambandi, virðumst eiga erfiðara með að koma fyrirvaralaust. Okkur finnst eins og að það þurfi að tilkynna komu okkar, áður en við getum mætt við dyrnar hjá viðkomandi. Ýmsum líður þannig líka gagnvart almættinu. Það er eins og fólki finnist það vera svolítið utangátta og ekki endilega velkomið. Það langar að kynna sér trúna betur en þorir ekki. Þess vegna heldur það sér til baka. En Jesús minnir okkur á að við erum svo sannarlega velkomin. Hvort sem við höfum haft einhver kynni af Guði, mikil eða alls engin. Okkur er ætíð óhætt að stíga næsta skref. Jesús hvetur okkur til að koma til sín og tekur okkur fagnandi. Við kynnumst Guði og nálgumst hann, í gegnum orðið hans sem er að finna í Biblíunni. Þessi magnaða bók er lykillinn að leyndardómum Guðs sem opinberast okkur þegar við lesum orðið. Stundum vekur orðið okkur til umhugsunar, á öðrum tíma fyllir það okkur von. Kannski kemur það jafnvel óþægilega við okkur eða gleður mjög mikið. Orð Guðs sem er að finna í Biblíunni geta haft svo mikil áhrif til góðs, í lífi okkar, ef við lesum þau reglulega. Við skynjum betur nálægð Guðs, við finnum styrk og kraft þegar á þarf að halda og við viljum gjarnan láta gott af okkur leiða. Þegar við lesum orð Guðs í Biblíunni kynnumst við orðinu sjálfu, Jesú sem gleðst yfir því að við komum til hans. Við þurfum ekki að gera boð á undan okkur. Við getum ætíð nálgast hann því hann er þegar kominn til okkar. Hann bíður eftir okkur með opinn faðminn og vill gefa okkur allt með sér.
Petrína Mjöll Jóhannesdóttir