Til að útskýra uppbyggingu og innihald bókarinnar má sjá hér ljósmynd af 11. janúar 2014. Lykilorð er 144 bls. vasabrotsbók og eru því yfirleitt nokkrir dagar á hverri bls. Áður umræddur dagur er að þessu sinni neðst á bls. 12 í bókinni. Inn á myndina hefur verið bætt við númerum í hringjum og fylgja skýringar fyrir neðan myndina á hverju atriði.
1. Þetta er hið eiginlega Lykilorð dagsins. Það er dregið úr safni rúmlega 1800 biblíuversa úr Gamla testamentinu. Þetta er gert í Herrnhut í Þýskalandi ár hvert þar sem bókin á uppruna sinn og er því sama versið í öllum útgáfum á bókinni um allan heim á hverjum degi.
2. Þessi texti, sem er alltaf úr Nýja testamentinu, heitir Lærdómstexti. Hann er valinn með það til hliðsjónar að snerta sama þema og Lykilorðið. Stundum er hann úr öðrum hvorum textanum sem gefinn er til frekari biblíulesturs (sjá 5 og 6).
Líkt og Lykilorðið er Lærdómstextinn valinn af útgefendum frumútgáfunnar, Losungen, í Herrnhut í Þýskalandi.
1. og 2. Lykilorðið og Lærdómstextinn eru hugsuð sem hvatning til þess að lesa Biblíuna í samhengi og til skilnings.
Upplýsingar um það úr hvaða íslensku biblíuþýðingu hver texti er tekinn má finna í tilvísanaskrá sem er aftast í bókinni.
Stundum hefur uppröðun orða verið breytt eða nöfn verið sett inn í stað persónufornafna.
3. Þriðji textinn er oftast sálmavers, bæn eða hugleiðslutexti í þeim tilgangi að leiða lesandann inn í bæn.
4. Sé tala fyrir aftan eða á eftir þriðja texta vísar hún til Sálmabókar íslensku kirkjunnar. Standi hins vegar „Ps“ fyrir framan númerið er vísað til Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Ef ekkert kemur fram má finna upplýsingar um það hvaðan textinn er fenginn í tilvísunarskrá sem er aftast í bókinni.
Hverjum degi fylgir tilvísun til tveggja biblíulestraráætlana:
5. Fyrri biblíulesturinn er frá „Lesungen der Heiligen Schrift im Kirchenjahr. Lektionar für alle Tage“. Gefið út af: A.Völker (Hannover 1997) í umboði: Helgisiðanefndar lútersku kirkjunnar í Þýskalandi. Hann er tengdur lestrum vikunnar og guðspjallinu (sjá 7).
6. Síðari biblíulesturinn er frá Ökumenischen Arbeitsgemeinschaft für Bibellesen (ÖAB – Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga um lestur Biblíunnar í Þýskalandi). Lesturinn er þannig uppbyggður að allir textar Nýja testamentisins eru lesnir á fjórum árum og helstu bækur Gamla testamentisins á sjö árum.
ÖAB sér einnig um að velja þá texta sem eru í bókinni sem Lykilorð ársins og Lykilorð hvers mánaðar.
7. Hátíðisdögum fylgja meiri upplýsingar og fleiri textar (ekki sýnt á myndinni hér fyrir ofan):
Fyrir ofan texta dagsins stendur þá nafn sunnudagsins í kirkjuárinu eða helgidagsins. Þá eru biblíulestrar dagsins (sjá 5 og 6) ekki neðst líkt og aðra daga heldur þarna ásamt fleiri biblíulestrum, tillögu að texta til að leggja út frá í prédikun og tillögu að sálmalagi úr Sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar fyrir viðkomandi hátíðisdag eða komandi viku.